Heimtur Ríkisendurskoðunar á upplýsingum um kostnað frá frambjóðendum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2010 eru afar lélegar eftir því sem fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins. Öllum frambjóðendum ber lögum samkvæmt að skila upplýsingum.

Ef kostnaður frambjóðanda fer ekki yfir 300 þúsund dugar honum að skila skriflegri yfirlýsingur til Ríkisendurskoðunar og er eyðublað að finna á vef stofnunarinnar. Fari kostnaður yfir 300 þúsund krónur þarf að skila uppgjöri vottuðu af endurskoðanda.

Frambjóðendur í prófkjöri eða forvali vegna sveitarstjórnarkosninganna vorið 2010 áttu að skila uppgjöri í síðasta lagi 1. desember það ár.  Allir frambjóðendur Framsóknarflokks og Vinstri grænna skiluðu uppgjörum.

119 tóku þátt í prófkjörum hjá Samfylkingunni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2010. 73 skiluðu uppgjöri. 39 prósent frambjóðenda Samfylkingarinnar skilaði sem sagt ekki. Heimturnar voru verri hjá Sjálfstæðisflokksframbjóðendum. Þar eiga eitthundrað frambjóðendur enn eftir að skila þegar nærri tvö ár eru liðin frá skilafresti. Því eru um 58% þeirra sem buðu sig fram hjá Sjálfstæðisflokknum sem eiga enn eftir að skila.