„Þeir sem fara í þetta þurfa að mínu mati að vera með góðan hug og hreint hjarta,“ segir Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi. Hann hefur setið í bæjarstjórn í meira en tvo áratugi en gefur ekki kost á sér áfram. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar fer fram í febrúar.

Gunnar segist búast við því að tekist verði á um fyrsta sætið á listanum en vill ekki segja hverjir munu takast á. Þó er ljóst að Ármann Kr. Ólafsson, oddviti flokksins og bæjarstjóri, gefur kost á sér áfram. „Þetta eru átján einstaklingar og margir þeirra mjög hæfir og fínir og mikill fengur að fá þá í vinnu og framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og bæjarfélagið,“ segir Gunnar í samtali við VB.is

Gunnar segir að hann sé í auknum mæli farinn að sinna verkefnum sem tengist sinni menntun, en hann er með doktorsgráðu í verkfræði. Hann verði þátttakandi í bæjarpólitíkinni fram á vor. Hann segir algjörlega ótímabært að hugleiða þingframboð. „Það er nú nýbúið að vera þingkosningar þannig að ég hef nú engar áhyggjur af því,“ segir hann aðspurður. „Maður er búinn að gera sitt besta fyrir þessar þingkosningar í 24 ár og þetta er orðið ágætt,“ bætir hann við.