Kristján Markús Bragason, sérfræðingur hjá Íslandsbanka sem hefur umsjón með greiningu og verðmötum hlutabréfa, segir að undirliggjandi sé mikil eftirspurn eftir hlutabréfum og eftirspurnin sé langt umfram framboðið. Hann segir erfitt að rýna í eða ætla sér að greina skammtímasveiflur á hlutabréfum en til lengri tíma litið sé ljóst að mikill munur sé á framboði og eftirspurn.

Rætt er við Kristján í úttekt í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins þar sem fjallað er um miklar hækkanir á íslenskum hlutabréfamarkaði undanfarnar vikur.

Um mikla hækkun á fyrstu dögum ársins segir Kristján að ofantaldir áhrifaþættir í byrjun árs gæti að hluta skýrt hækkanir. „Við höfum þó verið að horfa á ansi miklar hækkanir á hlutabréfum innanlands frá byrjun desember. Engar sérstakar fréttir hér á landi hafa komið fram sem gefa tilefni til svona hækkana. Útgreiðsla úr FSÍ hefur þó haft áhrif en greiddir voru 9 milljarðar út sjóðnum nýlega.“ Þá hafi hlutabréf hækkað um allan heim á fyrstu viðskiptadögum ársins, þó ekki sé hægt að slá því föstu að hækkanir hér heima tengist hækkunum í útlöndum. Þær séu þó vísbending um aukna bjartsýni og hreyfingar erlendis hafa smitáhrif hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.