*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 17. febrúar 2019 18:01

Framboð og eftirspurn dragast saman

Kjartan Hallgeirsson segir nokkra samverkandi þætti valda því að viðskiptum með atvinnuhúsnæði fari fækkandi.

Júlíus Þór Halldórsson
Iðnaðarhúsnæði í Ártúnshöfða.
Haraldur Guðjónsson

Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala, segir nokkra samverkandi þætti valda því að viðskiptum fari fækkandi, sem hann telur ekki endilega vera birtingarmynd kólnandi hagkerfis.

Hann segir bæði framboð og eftirspurn hafa aukist verulega nokkrum árum eftir hrun; föllnu bankarnir hafi átt mikið magn fasteigna sem hafi farið í söluferli, á sama tíma og margir markaðsaðilar hafi séð tækifæri á markaðnum. Þær eignir séu nú búnar, og fjárfestar farnir að draga úr sínum fjárfestingum.

„Væntingar til hækkana á atvinnuhúsnæði voru mikið meiri en gengið hefur eftir. Það sem keyrði þennan markað svolítið áfram frá 2011 og 2012 var að menn voru að losa atvinnuhúsnæði út úr skilanefndunum og bönkunum í miklum mæli. Það er bara búið núna. Ég myndi segja að það hafi klárast svona á þarsíðasta ári að megninu til, þó kannski hafi verið einhverjar leifar eftir á síðasta ári. Það hefur sannarlega áhrif á markaðinn. Annað er að á sama tíma og bankarnir voru að losa um þessar eignir voru menn að byggja upp sjóði. Það hefur verulega hægst á því,“ segir hann, en fram kemur í Fjármálastöðugleika að skráðu fasteignafélögin þrjú, Reginn, Reitir og Eik, hafi vaxið mikið á undanförnum árum, og keypt fasteignir fyrir um 145 milljarða króna samanlagt á verðlagi 2018, frá 2012 til júní síðastliðins.

„Á tímabili var samkeppnin mikið meiri um þetta. Þeir veðjuðu á það að þessir bitar myndu hækka. Síðan gerist það á einhverjum tímapunkti að menn hægja á.“ Þetta kemur heim og saman við verðþróun atvinnuhúsnæðis samkvæmt vísitölu seðlabankans sem rakin var hér að ofan.

Þótt Seðlabankinn telji raunverðið orðið hátt og hagvöxtur fari ört lækkandi telur Kjartan minnkandi veltu ekki til marks um að þrótturinn sé farinn úr atvinnuhúsnæðismarkaðnum. „Ég held að atvinnuhúsnæði þurfi alltaf að skoða í samhengi við hvort veltan í atvinnulífinu sé að minnka. Það er ekki sami vöxturinn, en veltuminnkun er annað. Ég lít ekki á það sem kólnun þegar menn eru ekki að tapa,“ segir hann og bendir á að þrátt fyrir hægari vöxt sé samdrætti ekki spáð.

Atvinnuhúsnæði ekki fyrir Jón og Gunnu
Að vissu leyti segir Kjartan markaðinn vera orðinn eðlilegan á ný, eftir spennu og uppgang síðustu ára. „Atvinnuhúsnæði er ekkert fyrir Jón og Gunnu. Á tímabili var það þannig að það var allskonar fólk í fjárfestingum sem var ekki fagfjárfestar,“ segir hann. Áhugi almennra fjárfesta hafi bæst við mikinn áhuga fagfjárfesta. „Þegar þú setur af stað heilu sjóðina með kannski 10 milljarða, með það eina í huga að selja svo aftur eftir fimm ár, þá er það ekkert eðlilegur markaður. Nú erum við bara á eðlilegum markaði. Framboðið er kannski ekkert mikið, og eftirspurnin ekki heldur, og verðið bara eftir því, en ég get ekki séð að það sé að lækka.

Svo veltur þetta rosalega mikið á vöxtum. Aðalvandamálið eru þessar sveiflur. Atvinnuhúsnæði er alltaf á lánum á Íslandi. Ef lánakjör bankans eru hagstæð þá ertu grimmari að fara út og kaupa, en ef þau eru óhagstæð þá heldurðu að þér höndum. Vaxtastigið er svo mikil stýring á þessu. Það er miklu meira um það að atvinnuhúsnæði sé með óverðtryggðum og breytilegum vöxtum.“

Nánar má lesa um málið í Fasteignamarkaður, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is