Framboð Þóru Arnórsdóttur til embættis forseta Íslands fyrr á þessu ári kostaði samtals 15.172.661 krónur samkvæmt rekstrarreikningi framboðsins. Heildartekjur framboðsins námu 15.794.400 krónum. Er sagt frá þessu á mbl.is . Rekstrarafgangi framboðsins verður skipt á milli SOS barnaþorpa og Barnaspítala hringsins.

Framlög frá einstaklingum til framboðsins voru 10.507.852 króna og frá lögaðilum 4.126.500 krónur. Sala á kosningaskrifstofu skilaði ennfremur 332.350 krónum og þá námu eigin framlög 827.698 krónum.

Mestur kostnaður var vegna auglýsinga og kynningar á framboðinu eða 7.268.783 krónur en rekstur kosningaskrifstofu kostaði tæplega þrjár milljónir króna. Áður hefur komið fram að kostnaður við framboð Ólafs Ragnars Grímssonar kostaði um 6,5 milljónir og að framboð Ara Trausta Guðmundssonar hafi kostað um 1,8 milljón króna.