*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 29. janúar 2018 11:44

Framboðið til höfuðs Gylfa í ASÍ

Mótframboð til formanns Eflingar í fyrsta sinn í sögunni. Nýtur stuðnings VR en Sólveig er meðlimur í Sósíalistaflokknum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segist ekki hafa heyrt af því áður að formaður VR hafi afskipti með beinum hættu af kjöri í öðru félagi að því er Morgunblaðið greinir frá. „Mér finnst mjög athyglisvert að formaður VR sé með svona beinum hætti að hafa afskipti af kjöri í öðru félagi,“ segir Gylfi.

Vísar hann þar í ummæli Ragnars Þórs Ingólfssonar um að ef Sólveig Anna Jónsdóttir frambjóðandi til formanns Eflingar myndi sigra væri Gylfa ekki lengur stætt sem forseta ASÍ. Framboðsfrestur er til klukkan 16:00 í dag og þarf framboðið að hafa 120 manna meðmælalista.

Um er að ræða fyrsta sinn í sögu Eflingar sem kosið er um embætti formanns en framboð hennar er til höfuðs lista uppstillingarnefndar og trúnaðarráðs Eflingar sem leiddur er af Ingvari Vigri Halldórssyni. Sigurður Bessason formaður síðustu tvo áratugina gefur ekki kost á sér áfram. Kosið verður væntanlega milli Ingvars og Sólveigar á aðalfundi félagsins 26. apríl næstkomandi.

Sólveig Anna segir Ragnar Þór hafa blásið framboðinu eldmóð í brjóst á baráttufundi sem haldinn var í gær, en Sólveig sem starfar á leikskóla, bauð sig fram fyrir Alþýðufylkinguna fyrir alþingiskosningar árið 2016, en hefur síðan verið virk í starfi Sósíalistaflokks Íslands.

VR og Efling með helming félagsmanna í ASÍ

VR og Efling eru samanlagt með tæplega helming félagsmanna í ASÍ, en um 33 þúsund félagsmenn eru í VR og 28 þúsund í Eflingu.

„Forysta ASÍ er kosin á þingum ASÍ og tengist ekkert kjöri í einstaka aðildarfélögum,“ segir Gylfi og segist lítið skilja í ummælum Ragnars Þórs þó hann segi vel kunna að vera að félögin tvö geti reynt að taka yfir miðstjórn ASÍ á næsta þingi Alþýðusambandsins.

„Ég hef ekki í mínu starfi haft afskipti af kjöri í forystu aðildarfélaganna. Það eru félagsmenn Eflingar í þessu tilfelli sem ákveða það með hvaða þætti þau vilja haga sinni forystu og það er alveg ljóst að á þingum Alþýðusambandsins er fjallað um og tekist á um stefnumótun. Ragnar hefur verið á þingum ASÍ í nokkuð mörg ár. Hann hefur tvisvar sinnum boðið sig fram gegn mér og í bæði skiptin tapað því.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is