Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að svo virðist sem farið sé að draga úr hinni miklu töf sem einkennt hefur viðbrögð framboðshliðar fasteignamarkaðarins við breyttum aðstæðum.

Nokkur ár getur tekið fyrir húsnæði að verða til, frá skipulagsstiginu og þar til hún er fullbúin, og því hafa viðbrögð markaðarins við skorti eða offramboði átt það til að skila sér seint, og jafnvel ýkja sveifluna enn meira.

„Það er klárlega jákvætt ef framboðshliðin er að verða kvikari, enda eftirspurnin mjög kvik. Ef framboðshliðin er að lagast mun það hjálpa okkur mikið við að draga úr þessum sveifluaukandi áhrifum í verstu tilfellum, sem við til dæmis sáum fyrir 10 árum.“

Í þetta skiptið virðast hins vegar markaðsaðilar hafa sýnt framsýni, með þeim afleiðingum að framboð og eftirspurn séu nokkurn veginn í jafnvægi, og útlit sé fyrir að svo muni áfram verða í fyrirsjáanlegri framtíð.

„Manni sýnist að það sé að verða svolítil breyting á þessu. Kannski af því að raddirnar voru orðnar nokkuð háværar fyrir nokkrum árum um að það stefndi í býsna mikið framboð. Það getur verið að verktakar hafi hagað sínum málum þannig að þeir hafi átt hægara með að hægja á framkvæmdahraðanum og fresta einhverjum byggingum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .