*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Innlent 12. júlí 2018 11:53

Framboðsvandi á markaðnum

Norska lágfargjaldaflugfélagið Norwegian hefur leikið stórt hlutverk í að halda verði á flugfargjöldum niðri.

Ástgeir Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Eins og greint hefur verið frá í vikunni lækkaði hlutabréfaverð Icelandair Group um 25% á mánudag í kjölfarið á því að félagið sendi frá sér kolsvarta afkomuviðvörun kvöldið áður. 

Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá hagfræðideild Landsbankans segir að lágfargjaldaflugfélög hafi gert Icelandair erfitt fyrir. „Það er ákveðinn framboðsvandi á markaðnum, þá sérstaklega vegna Norwegian lágfargjaldaflugfélagsins. Þeir eru með mikið af nýjum vélum og það er dýrt fyrir þá að hafa þær ekki í loftinu og það sama á að einhverju leyti við um WOW air. Þetta hefur leitt til þess að framboð hefur aukist mikið sem hefur haldið flugfargjöldum niðri.“

Ytri þættir óhagstæðir 

Sveinn segir einnig að ytri þættir í rekstri Icelandair hafi haft mikil áhrif.  „Olíuverð, gengi íslensku krónunnar og verð á flugfargjöldum eru allt þættir sem félagið hefur litla stjórn á. Félagið er verðtaki á flugleiðinni frá Evrópu til Norður-Ameríku og hefur því lítið ráðrúm til þess að hreyfa verð á flugi heldur verða þeir að elta það sem samkeppnisaðilarnir eru að gera. Hvernig sú þróun á eftir að verða myndi ég telja að sé stærsti áhættuþátturinn þegar litið er fram á við.

Félagið gerði að einhverju leyti ráð fyrir því að samkeppnisaðilar myndu hækka verð í kjölfarið á hærra olíuverði en það hefur ekki gerst. Ef olíuverð heldur sér á þeim stað sem það er núna eða jafnvel hækkar er mjög líklegt að flugfargjöld hækki á endanum. Spurningin er bara hvort það verði nóg fyrir Icelandair. Svo er það ekkert launungarmál  að starfsmannakostnaður Icelandair er hærri en gengur og gerist erlendis sem er ekki til þess að hjálpa félaginu í harðri samkeppni.“

Afkoma Norwegian umfram væntingar

Fyrr í dag var greint frá því að Norwegian hefði skilað hagnaði sem samsvarar um fjórum milljörðum króna öðrum ársfjórðungi þessa árs. Var þetta töluverður viðsnúningur frá sama ársfjórðungi í fyrra þar sem félagið tapaði um níu milljörðum. Kom afkoman norskum greiningaraðilum á óvart en margir þeirra höfðu gert ráð fyrir því að félagið myndi skila tapi á ársfjórðungnum. Hefur gengi hlutabréfa Norwegian hækkað um 4% í kauphöllinni í Osló það sem af er degi. Vöxtur Norwegian hefur verið mjög hraður síðustu ár og þannig jókst framboð flugfélagsins um nærri helming á síðasta ársfjórðungi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.