Kostnaður við kosningabaráttu Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nam í heildina 380 milljónum króna á árabilinu 1998 til 2008.

Þetta kemur fram í skýrslu um framboðið sem birt er á vef utanríkisráðuneytisins.

Þar kemur fram að mestur kostnaður hlaust af því að bæta við starfsfólki í New York 2001 og 2007 og í minna mæli í utanríkisráðuneytinu 2007.

Kostnaðurinn skiptist þannig niður að 343,5 milljónum króna var varið til starfsmannamála en annar kostnaður var 36,5 milljónir króna.

Í fyrstu kostnaðaráætlunum var gert ráð fyrir að heildarútgjöld yrðu á bilinu 800-1200 milljónir króna. Árið 2005 var ákveðið að lækka framlög um helming, þ.e. í 400 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins er enginn útistandandi kostnaður.