*

fimmtudagur, 20. júní 2019
Innlent 28. apríl 2017 15:19

Framfarasjóður SI úthlutar styrkjum

Tækniskólinn og Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar fá styrki frá Samtökum Iðnaðarins til að leiða sitt hvort verkefnið.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, og Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, afhentu tvo styrki úr Framfarasjóði Samtaka iðnaðarins fyrr í dag.

Annars vegar er um að ræða fimm milljóna króna styrk sem fer til verkefnis um þróun rafrænna ferilbóka sem unnið verður af Tækniskólanum í samstarfi við aðra framhaldsskóla, Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins, Menntamálastofnun og Advania. Um er að ræða verkefni sem á að stuðla að miklum framförum í öllu námi sem tengist iðn-, tækni- og verkgreinum.

Hins vegar er um að ræða tveggja milljóna króna styrk til að þróa og yfirfæra hæfniramma innan framleiðslufyrirtækja í Eyjafirði sem unnið verður af Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar-SÍMEY, Sæplasti, Ferrozink, Norðlenska og Becromal Ísland.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, segir mikilvægt að hvatt sé til nýjunga sem ýti undir framfarir fyrir iðnaðinn hér á landi. 

„Samtök iðnaðarins taka þátt í fjölmörgum verkefnum sem hafa það að markmiði að efla atvinnulífið. Framfarasjóðurinn gefur okkur tækifæri til að stuðla að nýjungum svo iðnaðurinn blómstri. Verkefnin sem hlutu styrki að þessu sinni hafa möguleika á að ná breiðri skírskotun og falla því vel að markmiðum sjóðsins.“

Ferilbók heldur utan um námsframvindu

Halldór Hauksson, áfangastjóri Tækniskólans, segir styrkinn vera mikilvægan fyrir þróun verk- og starfsnáms á Íslandi.

„Það vantar gott rafrænt umhverfi fyrir ferilbók sem heldur utan um námsframvindu nemanda og starfsþjálfun sem hluta af hans námsumhverfi. Í ferilbókina er einnig safnað saman upplýsingum um starfsferil einstaklinga til að byggja á og vinna raunfærnimat. Að námi loknu er gert ráð fyrir að einstaklingur geti notað ferilbókina sem persónulega ferilskrá alla starfsævina og skráð þar starfsferil sinn og viðbótarnám.“

Hólmar Svansson, framkvæmdastjóri Sæplasts, segir styrkinn gera kleift að fá ólík framleiðslufyrirtæki til að samræma hvernig starfsmenn eru metnir að verðleikum.

„Ávinningurinn af því að staðla mat á færni starfsmanna auðveldar ekki eingöngu ráðningar í framleiðslufyrirtækjum heldur getur það ýtt undir framgöngu starfsmanna innan einstakra fyrirtækja eða á milli fyrirtækja. Það eykur möguleika starfsmanna að fá reynslu sína og getu metna sem gefur þá góðar vísbendingar um hversu hæfir þeir eru. Þannig er hægt að skapa ramma fyrir markvissa starfsþróun þeirra sem starfa í framleiðslufyrirtækjum.“

Framfarasjóður SI var stofnaður á síðasta ári í þeim tilgangi að skapa farveg sem styður við og þróar framfaramál tengd iðnaði. Stofnfé sjóðsins er 500 milljónir króna. Markmið sjóðsins eru í fyrsta lagi að efla menntun fyrir atvinnulífið með áherslu á iðn-, verk- og tækninám, í öðru lagi er áhersla á nýsköpun sem styrkir framþróun í iðnaði og í þriðja lagi framleiðniaukningu með áherslu á skilvirkt rekstrarumhverfi. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum fór í Microbit verkefnið þar sem hátt í 10 þúsund börn í 6. og 7. bekk grunnskóla fengu forritanlegar smátölvur.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is