Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins hefur veitt fjórum verkefnum styrki samtals að upphæð 8 milljónir króna. Við val á verkefnunum er horft til þess að þau efli menntun í iðn-, verk- og tækninámi, að um sé að ræða nýsköpun sem styrki framþróun í iðnaði og að þau leiði til framleiðniaukningar. Með vali á þessum fjórum verkefnum sem hljóta styrki endurspeglast áherslur Samtaka iðnaðarins. Sjóðurinn var stofnaður árið 2016 í þeim tilgangi að skapa farveg sem styður við og þróar framfaramál tengd iðnaði. Sjóðnum bárust átta umsóknir að þessu sinni.

Verkefnin fjögur sem hljóta styrki úr Framfarasjóði SI eru:

  • Málarameistarafélagið hlýtur 1.000.000 króna styrk til þess að þýða, prenta og dreifa kynningarbæklingi sem á að tryggja að allir verkkaupar taki út vinnubrögð málara eftir samræmdum viðmiðunum.
  • Eiríkur Ástvald Magnússon og Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir hljóta 2.000.000 króna styrk til að greina stöðu námsgagna og kennslu varðandi rakaöryggi bygginga og greina þarfir á gerð uppfærðra námsgagna á þessu sviði fyrir íslenskar aðstæður.
  • Qair Iceland hlýtur 2.500.000 króna styrk til rannsókna á laga- og reglugerðarumhverfi á Íslandi fyrir vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu.
  • Starfsgreinahópur fyrirtækja í prentiðnaði innan Samtaka iðnaðarins hlýtur 2.500.000 króna styrk vegna fræðsluátaks um sjálfbærni pappírs- og prentiðnaðar. Fræðsluátakið er unnið í samstarfi við evrópsku samtökin Two sides og íslenska skógfræðinga.

Á myndinni hér að ofan eru, talið frá vinstri:  Jón Svan Sverrisson, fjármálastjóri Svansprents, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI , Tryggvi Þór Herbertsson, formaður Qair Iceland , Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI , Eiríkur Ástvald Magnússon, byggingarverkfræðingur, Árni Sigurjónsson, formaður SI , Már Guðmundsson, formaður Málarameistarafélagsins, og Sigríður Mogensen , sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI .