Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir það hafa komið á óvart að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálarráðherra, hafi tjáð sig í fjölmiðlum um það að lífeyrissjóðir þyrftu að koma að lausn á vanda Íbúðalánasjóðs. Gunnar tjáir sig um málið í ítarlegi viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Um daginn steig nýr velferðarráðherra fram í fjölmiðlum og sagði lausn á vanda Íbúðalánasjóðs kalla á aðkomu helstu kröfuhafa, sem eru lífeyrissjóðirnir. Geta sjóðirnir komið að lausn á vanda sjóðsins?

„Skuldabréf Íbúðalánasjóðs eru með ríkisábyrgð og við höfum metið þau þannig. Ef við erum kölluð til viðræðna þá munum við mæta á þann fund. Það er vert að hafa í huga að núverandi skuldabréf eru óuppgreiðanleg. Á sínum tíma höfðu stjórnvöld frumkvæði að því að uppgreiðanlegum bréfum var skipt út fyrir óuppgreiðanleg bréf. Fjárfestar, þar á meðal lífeyrissjóðir, greiddu fyrir það ákveðið skiptigjald. Ef stjórnvöld vilja ræða um breytingar á kjörum skuldabréfanna, til dæmis ef það bærist ósk um að skipta til baka í uppgreiðanleg bréf, þá teldi ég mikilvægt að það væri horft til þess sem gerðist árið 2004, þegar skiptin fóru fram“ segir Gunnar.

Þegar Gunnar er spurður hvort lífeyrissjóðir séu reiðubúnir að „gefa afslátt“ í samningaviðræðum um skuldabréf Íbúðalánasjóðs, til að mynda í krafti hagsmuna skattgreiðenda sem þegar hafi þurft að greiða tugi milljarða vegna vanda Íbúðalánasjóðs á sama tíma og lífeyrissjóðir, og þar með sjóðfélagar, eru langstærstu kröfuhafarnir, segir hann að eignirnar verði varðar eins og aðrar eignir. „Bréfin eru keypt miðað við ákveðnar forsendur og við metum þau sem slík, það væri líka mjög alvarlegt mál ef ekki verður staðið við skuldabréf með ríkisábyrgð og gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir ríkissjóð til langs tíma,“ segir hann.

Gunnar segir að stjórnvöld hafi ekki leitað formlega til lífeyrissjóðanna til lausnar á vanda sjóðsins, né hafi nokkuð slíkt verið rætt á óformlegri hátt. Kemur það þér á óvart að ráðherra stígi fram og segi það nauðsynlegt að setjast niður með helstu kröfuhöfum?

„Það kemur mér mest á óvart að ráherra skuli tala um það í fjölmiðlum. Það verður að hafa í huga að ummæli um skráð verðbréf geta haft áhrif á verðmyndun þeirra.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.