Mikill meirihluti félagsmanna Kennarasambands Íslands í  ríkisreknum framhaldsskólum hefur samþykkt að fara í verkfall 17. mars næstkomandi, hafi samningar við þá ekki náðst. Atkvæði voru greidd um verkfallsboðunina dagana 18. til 21. febrúar, en atkvæði voru talin í dag. Niðurstaðan er sem hér segir:

Á kjörskrá voru 1.541
Atkvæði greiddu 1.339 eða 86,9%
Já sögðu 1.173 eða 87,6%
Nei sögðu 134 eða 10,0%
Auðir seðlar og ógildir voru 32 eða 2,4%

„Þessi afgerandi niðurstaða sýnir að kennarar standa af fullum hug á bak við samninganefndir Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum. Enda förum við aðeins fram með þá sanngjörnu kröfu að laun okkar verði hækkuð til samræmis við samanburðarhópa,“ segir Aðalheiður Streingrímsdóttir, formaður FF, í tilkynningu um niðurstöðuna. „Verkefnið framundan er að ná samningum, því þrátt fyrir úrslit atkvæðagreiðslunnar þá veit ég að enginn kennari vill fara í verkfall. Það yrði neyðarúrræði,“ bætir hún við.