Norman Lamont, lávarður af Lerwick, sem var fjármálaráðherra Breta 1990-1993, sagði á ráðstefnu í Búdapest 15. nóvember 2013, að setning hryðjuverkalaganna á Íslendinga 2008 hefði verið „til skammar“. Íslendingar ættu skilið afsökunarbeiðni frá Bretum.

Lamont lávarður kvaddi sér hljóðs eftir fyrirlestur dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors á ráðstefnunni. Hannes hafði rakið hvernig stjórn Verkamannaflokksins hefði lokað íslensku bönkunum tveimur í Lundúnum fimm mínútum áður en hún kynnti viðamikla björgunaráætlun fyrir alla banka í Bretlandi og síðan sett hryðjuverkalög á einn íslenskan banka, sem hefði samstundis lamað starfsemi annarra íslenskra fyrirtækja og stofnana.

„Lamont lávarður notaði orðið „disgrace“ um framkomu stjórnar Verkamannaflokksins,“ útskýrir Hannes Hólmsteinn í samtali við Viðskiptablaðið spurður út í ummælin. „Hann var mjög vinsamlegur Íslendingum, enda er hann ættaður frá Hjaltlandseyjum, svo að hann er hálfgerður frændi okkar. Lamont var einn besti fjármálaráðherra sem Bretar hafa haft. Margir telja að aðhaldsaðgerðir hans hafi stuðlað að uppganginum í landinu næstu ár á eftir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .