Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að hefja stjórnsýsluúttekt á samstarfssamningum mennta- og menningarmálaráðuneytisins við rannsóknarfyrirtækið Rannsóknir og greining ehf. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Þar kemur fram að Ríkisendurskoðun telji fullt tilefni til að kanna nánar hvernig málum sé háttað með gerða samninga og hvort þeir standist lög og reglur. Forkönnun embættisins er lokið með þeirri niðurstöðu að kafa þurfi dýpra í samskipti fyrirtækisins við ráðuneytið.

Fréttablaðið greindi upphaflega frá því í haust að Rannsóknir og greining hefði frá árinu 2006 fengið yfir fimmtíu milljónir króna frá hinu opinbera í gegnum samning við menntamálaráðuneytið, en síðasti samningurinn var undirritaður árið 2009. Var hann af þeirri stærð að lög um opinber innkaup heimiluðu ekki samningagerð án þess að útboð hefði farið fram.