Í áliti fjárlaganefndar Alþingis um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2009, segir að vinnubrögð við framkvæmd fjárlaga, þar með talið uppgjör og reikningsskil, hafi verið ámælisverð árum saman, og að fjárlaganefnd geri kröfu um breytingar. Ríkisútvarpið greindi frá þessu í dag.

Í frétt Rúv segir að fjárlaganefnd telji að yfirsýn og stjórn á fjárreiðum ríkisins sé ekki skýr og þrátt fyrir að lagaumgjörð og reglur séu til staðar hafi þeim ekki verið fylgt eftir sem skyldi, sem sé ámælisvert að mati nefndarmanna.

Þá segir að samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins skuli gera grein fyrir öllum samþykktum skuldbindingum ríkisins í ríkisreikningi hvers árs. Fjárlaganefnd beinir þeim eindregnu tilmælum til fjármálaráðuneytisins, samkvæmt Rúv, að það sjái til þess að svo verði gert framvegis. Loks segir að það sé álit nefndarinnar að heimildir til fjármálaráðherra í fjárlögum hafi verið of rúmar og rétt sé að þrengja þær og skilgreina betur hvað í þeim felst.