Framkvæmd formannskjörs í Framsóknarflokknum á flokksþingi í byrjun október hefur verið kærð. Þetta staðfestir Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur.

Samkvæmt fréttastofu RÚV hafa fleiri en einn aðili lagt fram kvörtun eða kæru vegna kosninganna, þó ekki liggi fyrir hver lagði kæruna fram.

Sveinn Hjörtur sagði í viðtali á Útvarpi Sögu daginn eftir flokksþing Framsóknarmanna að honum sýndist sem svo að það hefði verið svindlað í kosningu til formanns. Fjölmargir einstaklingar, sem hefðu átt að vera á kjörskrá, hafi ekki fengið að kjósa.

Framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins segir í svari við fyrirspurn fréttastofu RÚV að engin kæra hafi borist. Aftur á móti hafi skrifstofunni borist beiðni um að rannsaka af hverju að einstaklingur sem hafi verið lesinn upp á kjörbréfi hjá Framsóknarfélagi Reykjavíkur hafi þegar til kom verið skráður sem varamaður.