Mun fleiri eru áhugasamir um fasteignaviðskipti, húsnæðisframkvæmdir og viðhald húsnæðis en undanfarin tvö ár ef marka má upplýsingar um fjölda leita á Google leitarvélinni. Auglýsingastofan SAHARA tók saman gögn um þróun leitarfyrirspurna í þessum tveimur flokkum og svo virðist sem landsmenn hafi verið í miklum fasteigna- og framkvæmdahugleiðingum frá því að heimsfaraldurinn hófst hér á landi af krafti í byrjun mars.

Í flokknum viðhald húsnæðis var litið til leita að eftirfarandi orðum: blöndunartæki, flísar, gluggar, gluggaskipti, hellulögn, hellur, hurðir, málning, múrari, pallaefni, parket, pípari, rafvirki, sement, smiður, timbur og þakrennur . Leitum að þessum orðum fjölgaði alls um 46% milli ára. Rúmlega 44 þúsund sinnum var leitað að þessum orðum á Google á tímabilinu frá mars til júlí á þessu ári.

Af einstaka orðum á listanum var einna mest áberandi aukning frá því í fyrra í leitum að pallaefni, sem jókst um 76%, og leitum að parketi fjölgaði um 62%.

Stóraukinn áhugi á húsnæðislánum

Útlán bankanna vegna íbúðarkaupa hafa aldrei verið hærri í einum mánuði en þau voru í maí á þessu ári og 25% fleiri eignir seldust fyrstu sex mánuði ársins en á sama tíma í fyrra.

Þessi aukni áhugi endurspeglast greinilega í leitum á Google en hér má sjá samanlagðan fjölda leitarfyrirspurna frá mars til júlí á þessu ári samanborið við árið í fyrra og árið 2018. Eftirfarandi orð voru skoðuð tengd fasteignaviðskiptum og fjármögnun: fasteignir, fasteignalán, fjármögnun, greiðslumat, húsnæðislán, lánareiknivél, nýjar íbúðir, nýjar íbúðir til sölu, íbúðir til sölu og óverðtryggð lán .

Hvað einstaka orð á listanum varðar var einna mest aukning á leitum að orðunum greiðslumat og húsnæðislán sem jukust um 46%-47% milli ára. Orðið fasteignir hefur árum saman verið meðal vinsælustu leitarorðanna hér á landi en orðið var slegið inn rúmlega 18 þúsund sinnum í leitarvélina í maí sem er met og það met var jafnað í júní.