Framkvæmdastjóra bandarísku fyrirtækjasamsteypunnar General Electric, John Flannery, hefur verið sagt upp störfum eftir aðeins rúmt ár í starfi.

Wall Street Journal segir uppsögnina koma á óvart, en djúpstæð vandamál í orkudeild samsteypunnar, sem urðu þess valdandi að félagið þurfti að gefa frá sér afkomuviðvörun um lakari afkomu og sjóðstreymi en spáð hafði verið, hafi komið stjórninni í opna skjöldu, með ofangreindum afleiðingum.

Stjórnarmaðurinn Larry Culp tók við af Flannery, en hann hafði tekið sæti í stjórninni í endurskipulagningarferli sem ætlað var að koma rekstri félagsins, sem hefur gengið erfiðlega, á réttan kjöl.

Hlutabréf í félaginu hækkuðu um 7% í gær eftir að tilkynnt var um framkvæmdastjóraskiptin, en bréfin hafa fallið um helming á aðeins ári.