Framkvæmdastjórar Egils áfengt og Egils óáfengt hjá Ölgerðinni seldu hlutabréf í félaginu fyrir 36,6 milljónir króna hvor um sig í morgun. Báðir seldu þeir 3,5 milljónir að nafnverði á genginu 10,45 krónur á hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Guðmundur Pétur Ólafsson, framkvæmdastjóri Egils óáfengt, átti 7,5 milljónir hluta í Ölgerðinni fyrir frumútboð félagsins í maí. Valur Ásberg Valsson, framkvæmdastjóri Egils áfengt, átti 7,1 milljón hluta. Ætla má því að þeir hafi báðir verið að minnka hlut sinn í Ölgerðinni um helming.

Miðað við kauphallartilkynningar Ölgerðarinnar eru þetta fyrstu viðskipti þeirra beggja með hlutabréf félagsins frá skráningunni í júní.

Þó má gera ráð fyrir Guðmundur Pétur og Valur Ásberg eigi báðir kauprétti sem veittir voru lykilstarfsfólki félagsins sumarið 2021.

Í skráningarlýsingu Ölgerðarinnar í maí kom fram að útistandandi kaupréttir í mars síðastliðnum voru 91.875.000 kr. að nafnvirði til 17 starfsmanna. Innlausnarverð úthlutaðra kaupréttanna er 4,75 krónur á hlut sem hækkar um 8,0% á ári. Ávinnslutími kaupréttanna er til 19. maí 2024 og hefst nýtingartímabil þegar ávinnslutímanum lýkur.