Tveir framkvæmdastjórar hins vinsæla leigubílaforrits Uber hafa verið handteknir í Frakklandi. Talskona ákæruvaldsins þar í landi sagði að þeir væru í haldi vegna gruns um ólöglegt athæfi.

Uber er snjallsímaforrit sem tengir bílstjóra við farþega og er afar óvinsælt meðal leigubílstjóra víðs vegar um heiminn. Uber hefur lækkað verð í fjölmörgum borgum og kemur aukin samkeppni sér illa fyrir leigubílstjóra, sem hafa mótmælt fyrirtækinu harðlega. Segja þeir að Uber sé að stela af þeim lífsviðurværinu.

Á dögunum fóru leigubílstjórar í Frakklandi í verkfall og héldu mótmæli sem fóru gersamlega úr böndunum. Uber segist ætla að halda áfram starfsemi sinni í Frakklandi, en fyrirtækið hefur verið bannað í nokkrum löndum.

Í síðustu viku lagði innanríkisráðherra Frakklands bann við bíladeilingarþjónustunni UberPOP eftir mótmæli franskra leigubílstjóra um allt land. Hann sagði þjónustuna ólöglega og skipaði lögreglu að framfylgja banni sínu.

Uber segir að fyrirtækið muni hætta starfsemi sinni í Frakklandi ef og aðeins ef dómstóll þar í landi skipar fyrir.