Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sætir um þessar mundir formlega rannsókn franskra yfirvalda vegna meintrar aðildar í spillingamáli þegar hún var fjármálaráðherra Frakklands árið 2008. Lagarde hefur áður verið yfirheyrð vegna málsins en hún mun ekki víkja úr starfi á meðan á rannsókn stendur.

Rannsóknin snýr að greiðslum sem franski auðjöfurinn Bernard Tapie hlaut frá franska ríkinu árið 2008 sem nam 430 milljónum evra, eða tæpum 66 milljörðum íslenskra króna.

Margir valdamiklir Frakkar hafa tengst rannsókninni sem snýr að auðjöfrinum Bernard Tapie og hafa meðal annars Lagarde og fyrrverandi Frakklandsforseti Nicolas Sarkozy verið rannsökuð.