Gauti Hallsson, framkvæmdastjóri Becromal, sagði upp störfum í gær. Hann hættir störfum samstundis. Fréttastofa Rúv greinir frá. Gauti vildi ekki tjá sig við fréttastofu Rúv hvers vegna hann hefði sagt upp né hvernig starfslokum yrði háttað.

Þann 24. mars greindi Kastljós frá því að Becromal hefur losað margfalt meira af vítissódamenguðu vatni í sjó við Krossanes en heimilt er samkvæmt starfsleyfi. Sólarhring eftir umfjöllunina sögðu forsvarsmenn fyrirtækisins að búið væri að koma í veg fyrir vandann, en verksmiðjan hafði þá starfað í tvö ár.

Í frétt Rúv segir að ítalskur forstjóri Becromal hafi komið til Akureyrar nú í vikunni en hann hafi ekki viljað veita viðtal.