Fjármálaeftirlitið sá ástæðu til að gera athugasemd við framkvæmd Sameinaða Lífeyrissjóðsins á sölu á bifreið til Kristjáns Arnars Sigurðssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins.

Þegar samþykkt var að selja framkvæmdastjóranum bílinn lá ekki formlegt verðmat fyrir en stjórninni var kunnugt um að markaðsverð hennar væri líklega hærra en umrætt söluverð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu. Stjórnin taldi þó að að líta skyldi á samningsverðið sem hluta af þeirri breytingu sem var lögð til á bifreiðahlunnindum framkvæmdastjórans. Fjármálaeftirlitið taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við þetta fyrirkomulag en beindi því til sjóðsins að eðlilegra hefði verið að setja bifreiðina á sölu og leita tilboða í stað þess að selja hana aðila tengdum lífeyrissjóðnum á fjárhæð sem gæti virst undir markaðsvirði bifreiðarinnar.

Þegar bifreiðin var seld staðgreiddi framkvæmdastjórinn hluta af kaupverðinu en eftirstöðvarnar áttu að greiðast til sjóðsins með jöfnum afborgunum næstu 5 mánuði. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins var ekki reiknað með að vextir yrðu greiddir af láninu.

Eftirlitið óskaði skýringa á þessu þar sem lífeyrissjóðum er óheimilt að veita lán til framkvæmdastjóra þess nema hann sé félagi í sjóðnum og þá eftir reglum sem gilda um sjóðsfélagalán. Lífeyrissjóðurinn taldi að um einstakt tilfelli hafi verið að ræða sem snéri að umræddum breytingum á starfskjörum framkvæmdastjóra sjóðsins og því ekki um venjubundin viðskipti við sjóðsfélaga að ræða.

Eftirlitið benti sjóðnum á að honum hafi verið í lófa lagið að beina því til framkvæmdastjórans að fjármagna kaupin með öðrum hætti. Fjármálaeftirlitið taldi ljóst að sjóðfélögum hafi hvorki boðist lán til bifreiðakaupa né vaxtalaus lán og gerði því alvarlega athugasemd við vaxtalausa lánveitingu sjóðsins til framkvæmdastjóra sjóðsins vegna bifreiðakaupa. Sjóðurinn hefur þegar brugðist við athugasemdinni að hluta þar sem framkvæmdastjórinn í samráði við stjórn sjóðsins hefur endurreiknað greiðslusamkomulagið vegna kaupa á bifreiðinni og reiknað verðbætur og sjóðfélagavexti á lánið sem þegar hafa verið greiddir.