Nýr framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) er enn óráðinn. Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður FSÍ, segist vonast til að niðurstöður ráðningaferlisins liggi fyrir innan eins til tveggja vikna. Hann vill ekki gefa upp hversu margir hafi sótt um starfið en segir að fjöldinn hafi verið talsverður. Auglýst var eftir framkvæmdastjóra sjóðsins, sem er í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS, um miðjan síðasta mánuð. Finnbogi Jónsson lét af störfum sem framkvæmdastjóri eftir tvö ár í starfi.