Eimskip sendi í kvöld frá sér tvær tilkynningar, annar vegar vegna rannsóknar héraðssaksóknara á sölu skipanna Goðafoss og Laxfoss þar sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs er kominn með stöðu sakbornings. Hins vegar var gerð húsleit í dönsku dótturfélagi vegna mögulegra brota á dönskum samkeppnislögum.

Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Eimskipi, var í dag boðaður til skýrslutöku hjá héraðssaksóknara vegna rannsóknar embættisins á sölu skipanna Goðafoss og Laxfoss á árinu 2019, sem Umhverfisstofnun kærði til héraðssaksóknara árið 2020. Mun hann njóta réttarstöðu sakbornings við skýrslutökuna.

Þá mun Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri flutningafélagsins gefa skýrslu hjá embættinu í þágu rannsóknar málsins sem fyrirsvarsmaður félagsins. Hann er þó ekki grunaður um refsiverða háttsemi.

„Eimskip telur sig hafa fylgt í einu og öllu lögum og reglum í þessu söluferli og seldi skipin til áframhaldandi rekstrar en ekki til endurvinnslu. Félagið mun eftir sem áður leitast við að veita héraðssaksóknara allar þær upplýsingar sem um er beðið,“ segir í tilkynningu félagsins.

Í lok síðasta árs var héraðssaksóknara veitt heimild til húsleitar á starfsstöðvum Eimskiptafélags Íslands hf. og Eimskip Ísland ehf. á grundvelli úrskurðar héraðsdóms.

Sjá einnig: Heimila húsleit hjá Eimskipi

Umrætt mál var til umfjöllunar í þættinum Kveik á RÚV í september 2020. Skipin tvö sem um ræðir fóru í niðurrif í brotajárn í skipakirkjugarðinum í Alang á Indlandi en stórir fjölmiðlar á borð við BBC höfðu fjallað um slæman aðbúnað verkafólks þar og brot á alþjóðasamþykktum um meðferð spilliefna um borð.

Síðar sama mánuð kærði Umhverfisstofnun Eimskip vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerða setta á grundvelli þeirra.

Húsleit hjá dönsku dótturfélagi

Danska samkeppniseftirlitið framkvæmdi í dag húsleit í Álaborg hjá dönsku dótturfélagi Eimskips á grundvelli dómsúrskurðar.

Húsleitin er sögð snúa að starfsemi Atlantic Trucking sem er hluti af Eimskip Denmark A/S og er hluti af rannsókn á háttsemi í landflutningum í Danmörku og tók til fleiri félaga á þeim markaði. Rannsakað er hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum danskra samkeppnislaga.

„Dótturfélagið vinnur að því að veita dönskum samkeppnisyfirvöldum aðgang að umbeðnum upplýsingum. Eimskipafélag Íslands hf. hefur ekki ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn dönskum samkeppnislögum í starfsemi Atlantic Trucking sem hefur um 5% markaðshlutdeild í gámaflutningum á þessum markaði,“ segir í seinni tilkynningu Eimskips.