Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, er fastur í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, vegna eldgossins í Grímsvötnum. Birkir hefur því stýrt viðbrögðum Icelandair vegna gossins frá Bandaríkjunum í samstarfi við stjórnendur félagsins á Íslandi. Tilkynnt hefur verið að Icelandair hyggist hefja flug vestur til Bandaríkjanna í kvöld og má þá gera ráð fyrir að framkvæmdastjórinn komist til landsins.

Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair segir að Birkir Hólm hafi verið með starfsfólki Icelandair á símafundum til að ákveða viðbrögð við eldgosinu, sem hófst á laugardaginn. Flug um Keflavíkurflugvöll var stöðvað í kjölfarið og hefur það legið niðri síðan. Slíkt felur eðlilega í sér gífurlega röskun á ferðaáætlunum þúsunda flugfarþega. Slíkt bitnar á framkvæmdastjóra Icelandair eins og öðrum sem ætluðu sér að ferðast til og frá Íslandi þessa daga.

Birkir Hólm bjó lengi í Washington og ætlaði að dvelja þar yfir helgina með fjölskyldu sinni. Á þriðjudag hóf Icelandair áætlunarflug til borgarinnar með sjálfan utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, innanborðs. Utanríkisráðherrann slapp heim eftir fund með Hillary Clinton en þeir sem framlengdu ferðina þurfa að bíða eftir að áætlunarflug hefjist á ný.