Málatilbúnaður forstjóra Valitors, Viðars Þorkelssonar, bendir til að afstaða hans og Valitors hafi ekkert breyst þrátt fyrir að þau séu reglulega gripin í bólinu við að brjóta samkeppnislög, að mati Jóhannesar Inga Kolbeinssonar, framkvæmdastjóra Kortaþjónustunnar, en í Fréttablaðinu í dag svarar Jóhannes Ingi grein sem Viðar skrifaði í sama blað þann 18. apríl síðastliðinn.

Þar sagði Viðar að í raun hafi Valitor ekki verið í samkeppni við Kortaþjónustuna, heldur við danska stórfyrirtækið Teller . Lítur Viðar svo á að Kortaþjónustan hafi í raun bara verið útibú Teller á Íslandi, en Samkeppniseftirlitið hafi horft framhjá því í rannsóknum sínum og sektarákvörðunum.

Í greininni í dag, sem Jóhannes Ingi titlar „ Er ég í falinni myndavél? “ segir að Valitor hafi, ásamt tveimur öðrum fyrirtækjum, viðurkennt í lok árs 2007 ólöglegt samráð sem hafi miðast við að koma Kortaþjónustunni út af íslenska markaðnum. „Með því að viðurkenna verknaðinn og gangast undir að hætta ólöglegum aðgerðum fékk Valitor lægri sekt en ella. En þann 12. apríl sl. fékk Valitor svo hæstu sekt sem lögð hefur verið á íslenskt fyrirtæki fyrir markaðsmisnotkun – hálfan milljarð króna – fyrir að hafa á árunum 2007 til 2009 misnotað markaðsráðandi aðstöðu sína í samkeppni, m.a. við Kortaþjónustuna. Þetta var sem sagt á sama tíma og Samkeppniseftirlitið var að semja um lægri sekt gegn bót og betrun,“ segir Jóhannes Ingi í greininni.

Hann heldur áfram: „Málsvörn Viðars er skemmtileg: Valitor er í raun lítilmagninn að berjast við vonda erlenda „risann“ og Samkeppniseftirlitið áttar sig ekki á „sjónarspilinu“. Þeir sem lesa úrskurð Samkeppniseftirlitsins sjá hins vegar vel hvernig þessi rök eru vegin og léttvæg fundin. Kortaþjónustan er einfaldlega íslenskt fyrirtæki í eigu Íslendinga. Við erum í sömu stöðu og þúsundir annarra íslenskra fyrirtækja sem kaupa vörur og þjónustu frá útlöndum og endurselja hér á landi.“