„Mín skoðun er sú að við eigum að taka upp svipað kerfi og Svíarnir,“ segir Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Í Svíþjóð er miðað við að fólk sé búið að endurgreiða lán sín fyrir 67 ára aldur. Eftir 55 ára aldurinn miðast námslán fólks við þá upphæð sem búist er við að það geti endurgreitt fyrir 67 ára aldur.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að Lilja Mósesdóttir hafi lagt fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um niðurfellingu námslána við 67 ára aldur.

Frumvarpið er byggt á námsaðstoðarkerfinu á hinum Norðurlöndunum. Þar er miðað við að námslán séu greidd upp á 15 til 25 árum. Hér á landi skulduðu 112 einstaklingar 66 ára og eldri Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) 343 milljónir króna í lok síðasta árs og nemur meðaluppgreiðslutíminn á bilinu 26,7 til 28,6 ár, samkvæmt upplýsingum frá LÍN.

Í frumvarpinu kemur fram að námsaðstoðarkerfið á hinum Norðurlöndunum er nokkuð frábrugðið því sem hér er. Þar byggist kerfið á samsetningu styrkja og lána.

Í Svíþjóð eru um 2/3 hlutar námsaðstoðar í formi lána og meginreglan er sú að endurgreiðslutími þeirra skuli ekki vera lengri en 25 ár. Frá þeirri reglu eru ákveðnar undantekningar og lán afskrifuð við vissan aldur. Þar er einnig að finna aldurstakmörk á veitingu lána sem er 54 ár.

Hér á landi er ekkert sem bannar fólki fyrir aldurs sakir að fara í háskólanám og sækja um námslán.

Hér má lesa hina fréttina: Ellilífeyrisþegar skulda LÍN 343 milljónir króna