Friðrik J. Arngrímsson
Friðrik J. Arngrímsson
© BIG (VB MYND/BIG)

Framkvæmdastjóri LÍÚ gagnrýnir stjórnvöld fyrir vinnubrögð við gerð nýrrar fjárfestingastefnu. Byrjað sé á að ákveða hversu mikið sjávarútvegurinn eigi að greiða í veiðigjald áður en skoðað sé hver áhrifin verði fyrir greinina. Kom þetta fram í fréttum Ríkisútvarpsins.

Í nýrri fjárfestingastefnu stjórnvalda segir að af 39 milljörðum, sem verja á í fjárfestingar á árunum 2013 til 2015 eigi 17 milljarðar að koma af veiðigjaldi og leigu á aflaheimildum.

Þetta gagnrýnir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ. „Það er náttúrulega mjög sérstakt að byrja að ákveða upphæðina. Fyrst þarf að fara í að skilgreina að það sé einhver umfram arður í sjávarútvegi og öll skattlagning auðlindarentu hefur gengið út á það. En þarna er byrjað, virðist manni, að ákveða tölu alveg án tillits til þess hvaða afleiðingar það hefur að taka þessa fjármuni út úr greininni, þannig að okkur lýst mjög illa á þetta," segir Friðrik.