Angel Gurría, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), er væntanlegur til landsins en hann mun 27. september næstkomandi flytja erindi um samkeppnismál hér á alþjóðlegri ráðstefnu. Að ráðstefnunni standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Gurría er aðalfyrirlesari á ráðstefnunni.

Fram kemur í auglýsingu um ráðstefnuna að Gurría hefur stýrt stofnuninni frá árinu 2006 en hann var áður utanríkisráðherra og fjármálaráðherra Mexikó.

Á ráðstefnunni munu um 30 erlendir og innlendir einstaklingar úr stjórnmálum, atvinnulífinu, fræðasamfélaginu og stjórnkerfinu fjalla um samkeppnismál í litlu hagkerfi og þær áskoranir sem við blasa. Um morguninn verður meðal annars fjallað um hvernig unnt sé að bæta skilvirkni markaða og stöðuna eftir hina alþjóðlegu fjármálakreppu. Á fjórum vinnustofum eftir hádegi verður fjallað um samkeppni í opinberri þjónustu, varnaðaráhrif sekta í samkeppnislagabrotum, framkvæmd samkeppnislaga á fjarskiptamarkaði og endurreisn efnahagslífsins í kjölfar bankahrunsins.