*

mánudagur, 27. janúar 2020
Erlent 5. september 2019 13:08

Framkvæmdastjóri William Hill hættir

Framkvæmdastjóri stafrænna lausna tekur við starfinu eftir að 700 sölustöðum var lokað í Bretlandi vegna lagabreytingar.

Ritstjórn
Veðmálafyrirtækið stefnir á áframhaldandi vöxt í sölu gegnum netið.
epa

Philip Bowcock, framkvæmdastjóri veðmálafyrirtækisins William Hill, mun láta af störfum í lok þessa mánaðar, samhliða aukinni áherslu á netveðmál og alþjóðlega markaði. BBC segir frá.

Í takt við þær breytingar mun framkvæmdastjóri stafrænna lausna (e. chief digital officer), Ulrik Bengtsson, taka við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Meginástæða breyttra áherslna fyrirtækisins er hrun í veltu sölustaða í Bretlandi, eftir að yfirvöld lækkuðu hámarksupphæð veðmála í svokölluðum fast-líkinda veðmálavélum (e. fixed-odds betting terminal) – nokkurskonar gamaldags vélrænum spilakössum – úr 100 pundum í 2 pund.

Fyrirtækið hefur ákveðið að loka 700 slíkum sölustöðum í kjölfar ákvarðanarinnar, en Bowcock sagði að eftir skipulagsbreytingarnar sé fyrirtækið nú vel í stakk búið til að nýta sér tækifæri á bandaríska markaðnum, ásamt áframhaldandi vexti í netheimum.

Stikkorð: William Hill