*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 12. febrúar 2020 16:58

Framkvæmdastjórinn svarar fyrir sig

Framkvæmdastjóri Sorpu segir í yfirlýsingu að uppsögn sinni virðist einkum ætlað að varpa athyglinni frá ábyrgð stjórnar.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, sem sagt var upp störfum fyrr í dag af stjórn félagsins, segir niðurstöðu stjórnarinnar vera sér mikil vonbrigði. Hann segir að uppsögninni virðist því einkum ætlað að varpa athyglinni frá ábyrgð stjórnar á þeirri áætlanagerð Sorpu sem sé til umræðu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu sem Björn sendi á fjölmiðla fyrir skömmu.

Björn fer um víðan völl í yfirlýsingunni. Hann segir að ákvörðun um byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar í Álfsnesi hafi verið ákveðin af stjórn Sorpu samkvæmt fyrirmælum frá eigendafundi Sorpu á grundvelli kostnaðaráætlunar sem stjórn og eigendur hafi útbúið sjálfir út frá eigin forsendum. Hann hafi ekki samþykkt þessa kostnaðaráætlun og ekki gert tillögu um þetta - líkt og komi skýrt fram í fundargerð. Ákvörðunin hafi því verið tekin með pólitísku „handafli“ til að framkvæmdir hæfust sem fyrst, án tillits til óvissu um kostnað. Telur Björn að „stjórnarmenn hafi hér ætlað að skáka í því skjóli að framkvæmdum yrði lokið talsvert fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar 2022. Kjósendur væru því ólíklegir til að minnast málsins þegar þar að kemur.“

Telur innri endurskoðanda vanhæfann til að rannsaka málið

Björn segir jafnframt að í eigendastefnu Sorpu komi fram að áhættumat í tengslum við lántökur sé á ábyrgð og hendi stjórnarmanna.

Hann hafnar því að hafa leynt stjórnina upplýsingum um greiðsluáætlanir og segir að hroðvirknislega hafi verið staðið að rannsókn málsins að hálfu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Auk þess segir hann innri endurskoðanda hafa verið vanhæfan til þess að framkvæma rannsóknina, þar sem móðurbróðir hans sé stjórnarmaður í Íslenska gámafélaginu. Það félag hafi verið einn helsti keppinautur Sorpu og „haft alveg sérstakt horn í síðu Sorpu svo árum skipti.“

Harmar niðurstöðuna

Í niðurlagi yfirlýsingarinnar segir Björn að aðdragandi og meðferð stjórnar í málinu gegn sér hafi öll verið í skötulíki. Honum hafi í upphafi árs verið tilkynnt að krafta hans væri ekki lengur óskað. Í kjölfarið hafi hoonum verið veitt lögbundið tækifæri til andmæla en þó aðeins í orði kveðnu. Frestur til andmæla hafi verið óhóflega naumt skammtaður og hann hafi ekki fengið öll gögn máls afhent þó hann hafi átt rétt á því. Ásetningur stjórnar að ganga gegn rétti hans hafi því verið einbeittur. Harmar Björn þá niðurstöðu að hafa verið sagt upp. 

“Heiðarlegra hefði verið fyrir stjórnina að líta í eigin barm og axla sjálf ábyrgð, frekar en að freista þess að varpa henni á mig.“