Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill fá aðild að Icesave-málinu sem nú er rekið fyrir EFTA dómstólnum. Framkvæmdastjórnin tekur undir kröfur Eftirlitsstofnunar EFTA í málinu og vill styðja við eftirlitsstofnunina í málarekstrinum gegn Íslandi. Fréttastofa RÚV greinir frá.

Eftirlitsstofnun EFTA vísaði málinu til dómstólsins í desember, eftir að Icesave-samningunum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lögfræðingar sem reka málið fyrir hönd Íslands hafa undanfarið skipst á greinargerðum og andsvörum við lögfræðinga eftirlitsstofnunarinnar. Í dag rann út frestur ESA til að svara greinargerð Íslendinga, sem fá mánuð til þess að svara andsvörunum. Dóms er að vænta undir lok árs, að því er kemur fram í frétt RÚV.

Aðild framkvæmdastjórnar ESB krefst samþykkis dómstólsins.