Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt blessun sína um áætlanir um skatt á fjármagnsflutninga í tíu ESB-ríkjum. Er skattinum ætlað að fjármagna að hluta aðgerðir til að leysa evruvandann. Í ríkjahópnum eru m.a. Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Spánn og vildu þau leggja skattinn á í þessum afmarkaða hópi eftir að þeim mistókst að fá stuðning ESB-ríkjanna allra.

Bretland hefur verið sérstaklega andsnúið skatti á fjármagnsflutninga vegna ótta við að hann myndi hafa neikvæð áhrif á breska fjármálakerfið. Auk stóru ríkjanna fjögurra verður skatturinn líklega lagður á í Austurríki, Belgíu, Grikklandi, Portúgal, Slóvakíu og Slóveníu. Í frétt BBC er haft eftir Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnarinnar, að skatturinn gæti aukið tekjur ríkjanna um milljarða evra.