Skúli Hrafn Harðarson, sjóðstjóri hjá Júpíter, segir að aðhaldsstig Seðlabankans hafi verið orðið óþarflega hátt. Framkvæmd vaxtalækkunarinnar hafi hins vegar komið sér á óvart.

„Ég reiknaði með að Seðlabankinn gæfi það sterklega til kynna að vextir myndu lækka á næstu mánuðum ef útflæði vegna fyrra skrefsins í afnámi hafta hefði takmörkuð áhrif á krónuna. Þar fyrir utan eru kosningar handan við hornið sem geta aukið verðbólguvæntingar á nýjan leik skapist óvissa um hverjir taka við stjórnartaumunum,“ segir Skúli.

Í sjálfu sér hefði engu skipt hvort vextir yrðu lækkaðir nú eða í október þar sem væntingar um lægri vexti hefðu hvort eð er lækkað vexti á markaði.

„Maður veltir fyrir sér hvort fyrirsjáanlegur rökstuðningur peningastefnunefndar fyrir þingnefnd vegna þess að verðbólgan hafi leitað undir 1% vikmörkin hafi haft áhrif á framkvæmd lækkunarinnar. Ég tel að Seðlabankinn hafi í þessari ákvörðun farið út af spori hvað varðar fyrirsjáanleika og hugsanlega skaðað trúverðugleika þegar litið er fram á veginn. Almennt hefur bankinn viljað breyta tóni og undirbúa markaðinn áður en skref eru stigin til breytinga, þá sérstaklega ef ekki er um stærri útgáfu Peningamála að ræða,“ bætir Skúli við.

Mistök gerð í nóvember

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og efnahagsráðgjafi hjá Virðingu, segir að Seðlabankinn sé farinn að rekast á neðri mörkin varðandi verðbólgumarkmið og þurfi að gæta þess að hún lækki ekki of mikið. Það kæmi honum ekki á óvart að Seðlabankinn myndi lækka vexti meira þar sem raunstýrivextir séu gríðarlega háir. Telur hann bankann hafa gert mistök þegar hann hækkaði vexti í nóvember í fyrra.

„Það kom mjög á óvart þegar Seðlabankinn hækkaði stýrivextina um 25 punkta í nóvember í fyrra og þegar litið er til baka er ljóst að það voru mistök miðað við það sem síðan hefur gerst. En með þeirri hækkun ýtti Seðlabankinn vaxtavæntingum ofar og hækkaði langtímavexti sem hefur síðan komið fram með gríðarháum raunvöxtum á þessu ári sem nú hefur verið brugðist við með vaxtalækkun.“ segir Ásgeir. Hann bætir því við að útlánavöxtur í bankakerfinu hafi verið mjög lítill á síðustu misserum sem sé einnig merki um töluvert peningalegt aðhald.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .