*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 4. mars 2021 17:59

Framkvæmdir að hefjast í Gufunesinu

Stefnt er að afhenta fyrstu íbúðir við Eiðsvík í Gufunesi í lok árs 2022 en alls verða byggðar 600-700 íbúðir á vegum Spildu.

Ritstjórn
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, tekur skóflustungu í Jöfursbási 7 ásamt forsvarsmönnum Spildu og fjárfestum verkefnisins, þeim Önnu Sigríði Arnardóttur, Gísla Reynissyni, Friðriki Má Þorsteinssyni og Baltasar Kormáki.
Aðsend mynd

Framkvæmdir hófust í dag við nýtt hverfi í Gufunesi. Af því tilefni tóku borgarstjóri og fulltrúar Fasteignaþróunarfélagsins Spildu skóflustungu í Jöfursbási 7. Markar það upphafið að uppbyggingu á 600-700 íbúðum í Gufunesi á vegum félagsins. 

Við Eiðsvík í Gufunesi er að rísa íbúðabyggð í gömlu iðnaðarhverfi sem nú hýsir kvikmyndaver og fyrirtæki í skapandi greinum.  Í fyrsta áfanga verða 73 íbúðir í þremur húsum ásamt því að flestar íbúðir verða með bílastæði í bílakjallara. 

Áætlanir gera ráð fyrir að fyrstu íbúðirnar verði afhentar í lok árs 2022. Íbúðirnar eru af ýmsum stærðum eða á bilinu tveggja til fimm herbergja, (50-120 fermetra). Flestar íbúðirnar eru þó þriggja herbergja og í kringum 85 fermetra að stærð.  

Það er arkitektastofan Arkþing Nordic sem hannar íbúðirnar og er lögð áhersla á að bæði sjávar- og fjallaútsýnið fái að njóta sín til hins ýtrasta. Einnig hefur verið lögð áhersla á að gera opnu svæðin á milli húsanna björt og aðlaðandi, ásamt því að inngangar húsa liggi að opnum svæðum og gönguleiðum. 

„Þessi skóflustunga markar tímamót hjá okkur og við erum spennt að hefjast handa við að byggja upp íbúðabyggð á þessum einstaka stað í höfuðborginni. Landslagið er einstakt, vogskornir klettar, strendur með svörtum og gylltum sandi, fuglalíf og útsýni yfir Geldinganes, Viðey, Esju og miðborgina. Óhindrað útsýni verður úr flest öllum íbúðum og engar götur munu skilja byggðina frá náttúrunni,“ er haft eftir Önnu Sigríði Arnardóttur, framkvæmdastjóra Spildu, í fréttatilkynningu. 

„Á sama tíma og þetta er algjör náttúruparadís þá eru allir innviðir til staðar enda er hverfið að rísa í gamalgrónu hverfi, Grafarvogi, sem er stærsta íbúðabyggð Reykjavíkur með 30 þúsund íbúum.  Í næsta nágrenni er öll þjónusta eins og verslun, fjölmargir skólar, leikskólar, sundlaugar og íþróttamannvirki,“ bætir Anna við. 

Stikkorð: Gufunes Spilda Eiðsvík Arkþing Nordic