Bakkafrumvörpin tvö voru samþykkt á Alþingi skömmu áður en fundum var frestað í nótt. Frumvarp um kísilver á Bakka var samþykkt með 32 atkvæðum gegn fimm atkvæðum en átta þingmenn sátu hjá. Frumvarp um uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka var samþykkt með 33 atkvæðum gegn fimm og sátu níu þingmenn hjá.

Samkvæmt hinum nýju lögum er ráðherra veitt heimild til að gera fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við PCC SE og PCC BakkiSilicon hf.um byggingu og rekstur kísilvers á Íslandi. Þá mun hið opinbera ráðast í framkvæmdir við höfn og vegi á svæðinu. Útgjöld hins opinbera munu samkvæmt frumvörpum nema um þremur milljörðum króna og verða veittar ýmsar skattaívilnanir til stuðnings uppbyggingunni.

Frumvörpin voru lögð fram á Alþingi þann 7. mars síðastliðinn og var nokkur samstaða meðal þingmanna ólíkra flokka um framkvæmdirnar. Bæði önnur og þriðja umræða fóru fram í gær áður en frumvarpið varð meðal þeirra síðustu til að verða að lögum á því þingi sem lauk í nótt.