Framkvæmdir eru hafnar við tólf hæða íbúðaturn á Höfðatorgi í Reykjavík og er áætlað að byggingu hans ljúki um sumar 2017. Pétur Guðmundsson, forstjóri Eyktar, segir í samtali við Morgunblaðið að 90 íbúðir verði í turninum.

Íbúðaturninn verður 12.000 fermetrar ofanjarðar og nemur kostnaður við byggingu hans á fimmta milljarð króna. Hönnunin bíður samþykkis borgaryfirvalda í Reykjavík, en hins vegar hefur framkvæmdarleyfi verið veitt vegna kjallara hússins.

Þá er gert ráð fyrir tveimur skrifstofubyggingum austur af íbúðarturninum og segir Pétur að hönnun við þær séu langt komnar. Stefnt sé að því að hefja framkvæmdir við annað skrifstofuhúsið með haustinu, en sú framkvæmd mun kosta nokkra milljarða króna.