Upphafi framkvæmda vegna kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík var fagnað í gær. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, klipptu þá á borða ásamt Kristjáni Þór Magnússyni, sveitarstjóra Norðurþings, og Waldemar Preussner, eiganda PCC.

Fjármögnun verksmiðjunnar lauk í sumar og nemur heildarfjármagn til verkefnisins um 300 milljónum dala eða 38 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka var ráðgjafi PCC við fjármögnun verkefnisins.

„Ég veit að PCC mun taka hlutverk sitt alvarlega og vera góður vinnuveitandi, virða það fallega umhverfi sem það starfar í ásamt því að taka virkan þátt í samfélaginu á Húsavík,“ sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sem flutti stutt ávarp ásamt öðrum aðstandendum verkefnisins af þessu tilefni.

Verksmiðjan á Bakka er fyrsta verkefnafjármögnun af þessari stærðargráðu með þátttöku erlends banka á Íslandi um langt skeið. Þýski bankinn KfW IPEX-Bank GmbH er aðallánveitandi verkefnisins.

Kísilmálmverksmiðjan mun skapa um 120 störf í Norðurþingi að ótöldum afleiddum störfum vegna starfseminnar.