Jón Viðar Arnþórsson, stjórnandi og formaður Mjölnis, segir stefnt að því að flytja um áramótin í nýtt húsnæði í gömlu Keiluhöllinni í Öskjuhlíðinni.

Í gærmorgun tryggði félagið, sem heldur úti líkamsrækt og kennslu í bardagaíþróttum í gamla Loftkastalanum við Seljaveg, sér húsnæðið til leigu til 15 ára.

Héldu að væri farið

Var komist að samkomulagi einni mínútu áður en hefja átti uppboð á húsnæðinu. „„Þetta kom í ljós klukkan tíu í morgun, einni mínútu áður en átti að bjóða upp húsið. Það voru allir mættir til að bjóða í það og við héldum að þetta væri farið frá okkur,“ sagði Jón Viðar í samtali við mbl.is .

„Það hefur verið svakaleg óvissa í marga mánuði og lítið sofið en núna er fólk að springa úr hamingju.“

Stefna á meira en tífölldun frá 2011

Þegar núverandi húsnæði félagsins var tekið í notkun árið 2011 voru 300 manns skráðir í félagið en nú eru þeir orðnir 1.400.

„Þetta sprakk fyrir tveimur til þremur árum. Við höfum þurft að vísa fólki frá í hverjum einasta mánuði, bæði börnum og fullorðnum, þannig að við hoppuðum hæð okkar þegar þetta kláraðist,“ segir Jón Viðar en með nýja húsnæðinu tvöfaldast aðstaða félagsins og er stefnt að 3.500 iðkendum.

„Við verðum með sex sali, bar, hárgreiðslustofu, verslun og nuddstofu, það er búið að skipuleggja þetta allt í þaula. Síðan er Öskujuhlíðin og skógurinn í kring frábær staður fyrir útiæfingar.“