Landsvirkjun og LNS Saga undirrituðu í dag samning um byggingu stöðvarhúss og gufuveitu vegna fyrsta áfanga Þeistareykjavirkjunar. Um er að ræða framkvæmdir upp á 6,6 milljarða króna en áætlað er að heildarkostnaður við fyrsta áfanga virkjunarinnar nemi á bilinu 20 til 24 milljarða króna. Fyrsti áfangi virkjunarinnar mun framleiða 45 megavött af raforku.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir að þetta sé ánægjulegur áfangi. „Við höfum lagt mikla vinnu í undirbúning Þeistareykjavirkjunar í mörg ár og allan þann tíma lagt áherslu á góða umgengni við umhverfi og sátt við samfélagið.“ Áætlað er að afhending orku frá virkjuninni geti hafist í október 2017. „Það er gott til þess að vita að innan þriggja ára getum við hafist handa við að framleiða frekari verðmæti fyrir eigendur okkar, íslensku þjóðina, úr þeirri auðlind sem við eigum saman,“ segir Hörður.

Landsvirkjun og PCC Bakki Silicon skrifuðu á síðasta ári undir raforkusölusamning vegna kísilvers á Bakka, en gert er ráð fyrir að Þeistareykjavirkjun þjóni raforkuþörf á svæðinu. Gert er ráð fyrir að undirbúningur framkvæmda hefjist á næstu vikum og þegar í júní munu um 150 manns vinna við byggingu stöðvarhússins og gufuveitunnar. Hátt í 200 manns munu vinna við framkvæmdirnar þegar mest verður.