*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 28. febrúar 2020 11:30

Framkvæmt fyrir 900 milljarða

Gripið verði til um 540 aðgerða til uppbyggingar innviða hér á landi og framkvæmdum flýtt í kjölfar óveðursins á dögunum.

Ritstjórn
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ráðherra iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Eyþór Árnason

Einfalda á allt ferli leyfisveitinga vegna framkvæmda við flutningskerfi raforku hér á landi auk annarra aðgerða til að flýta innviðaframkvæmdum ef tillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar verða samþykktar. Dæmi eru sögð af þjóðhagslega mikilvægum framkvæmdum í flutningakerfi raforku sem hafi tekið meira en áratug, og á að gera leyfisveitingakerfið skilvirkara.

„Ég fagna því að hér höfum við vandaða greiningu á því hvaða þættir hafa verið að valda mestum töfum og raunhæfar tillögur til úrbóta,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra orkumála. „Þetta snýst ekki um að draga úr kröfum eða samráði, þetta snýst um að auka skilvirkni. Þetta eru góðar tillögur sem ég tel að við eigum að ganga hratt í að útfæra og innleiða.“

Um 540 aðgerðir eru á áætlun hópsins sem skipaður var í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir landið í desember síðastliðnum, en þar á meðal er verið að flýta framkvæmdum fyrir um 27 milljarða króna á næstu tíu árum.

Af þeim eru 192 nýjar aðgerðir, og 40 aðgerðir sem lagt er til að verði flýtt í framkvæmdaáætlunum Landsnets og dreifiveitna, en samkvæmt mati hópsins mun heildarfjárhæð framkvæmda hins opinbera og innviðafyrirtækja í uppbyggingu innviða nema 900 milljörðum króna á næstu tíu árum.

Tillögur átakshóps um úrbætur í innviðum fela m.a. í sér að:

 • jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku verði flýtt til 2025 í stað 2035
 • framkvæmdir í svæðisflutningskerfi raforku sem ekki eru á 10 ára kerfisáætlun verði flýtt
 • leyfisveitingar vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku verði einfaldaðar og skilvirkni aukin
 • varaafl fyrir raforku og fjarskipti verði endurskilgreint og eflt
 • uppbyggingu ofanflóðavarna verði lokið árið 2030

Beint tjón raforku-, fjarskiptafyrirtækja og stofnana ríkisins naum um einum milljarði króna af óveðrinu, en tveir þriðju þess voru hjá raforkufyrirtækjum. Samkvæmt mati KPMG myndi stöðvun alls atvinnulífs landsins kosta 1,7 milljarða króna á dag, en ekki liggur fyrir tjón atvinnufyrirtækja, bænda og heimila af óveðrinu á dögunum.

Meðal tillagna átakshópsins til að gera leyfisveitingaferli framkvæmda skilvirkara er:

 • Bættur verði málsmeðferðarhraði hjá lykilstofnunum og mál sett í forgang er varða stjórnsýslu framkvæmda við flutningskerfi raforku
 • Heimilt verði að taka eina sameiginlega aðalskipulagsákvörðun um línulagnir þvert á sveitarfélagamörk
 • Heimilt verði að skipa sérstaka sjálfstæða stjórnsýslunefnd vegna framkvæmda við flutningskerfi raforku til að undirbúa og samþykkja skipulagsákvörðun, gefa út framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmdinni
 • Vinna við mat á umhverfisáhrifum annars vegar og skipulagsákvörðun hins vegar verði keyrð samhliða

Loks leggur átakshópurinn til fjölmargar aðgerðir til að styrkja innviði landsins til lengri tíma litið, sem snúi að:

 • úrbótum á varaafli
 • auknum áreiðanleika raforku- og fjarskiptakerfa
 • skilgreiningu á hlutverki og mönnun fyrirtækja og stofnana
 • samræmingu skipulags innviða
 • eflingu almannavarnakerfisins
 • fræðslu og upplýsingagjöf til almennings
 • eflingu rannsókna og vöktunar á náttúruvá.