Boðað hefur verið til funda í bæjarstjórnum Reykjanesbæjar og Garðs á morgun til að afgreiða framkvæmda- og byggingaleyfi fyrir álver í Helguvík. Byggingafulltrúar sveitarfélaganna hafa samþykkt umsókn Norðuráls. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Reykjanesbær og sveitarfélagið Garður staðfestu breytt deiliskipulag Helguvíkur í síðustu viku en það var forsenda þess að álver yrði reist á svæðinu. Sem kunnugt er áformar Norðurál að reisa þar hundrað og fimmtíu þúsund tonna álver í fyrsta áfanga. Norðurál hefur þegar sótt um framkvæmdaleyfi og lagt fram bæði teikningar og áætlanir.

Byggingafulltrúar beggja sveitarfélaga, Reykjanesbæjar og Garðs, hafa lagt blessun sína yfir verkið og framkvæmdaleyfi verður væntanlega gefið út á morgun, sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Bæjarstjórnarfundur hefur einnig verið boðaður í Garðinum síðdegis á morgun þar sem stendur til að veita Norðuráli framkvæmdaleyfi.