Framkvæmdastjóraskipti urðu um helgina hjá sementsframleiðandanum Aalborg-Portland Íslandi hf. (APÍ). Bjarni Ó. Halldórsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri frá því félagið opnaði hér á landi árið 2000 lét formlega af störfum 17. júní og Tómas Möller tók við hans stöðu.

Bjarni segir að sér hafi boðist að taka við Húsumsjón sem er nýtt félag í eigu Baugs, Stoða og Öryggismiðstöðvarinnar. Félaginu er ætlað að þjónusta leigutaka, stór og smá fyrirtæki sem og sameignarsvæði sem oft eru illa hirt. Húsumsjón mun byggja á undirverktökum en félagið mun setja sér sína eigin gæðastaðla.

Segir Bjarni að það hafi gengið mjög vel hjá APÍ og að hann muni vissulega kveðja sína starfsmenn hjá fyrirtækinu með söknuði. Það sé hins vegar alltaf spennandi breyta til og mun hann hefja störf hjá nýja fyrirtækinu um næstu mánaðamót.

Aalborg Portland Ísland hf. var formlega stofnað í byrjun ársins 2000 og byggir á sölu á sementi frá Aalborg Portland-Cement-Fabrik í Danmörku.

Frá upphafi var fyrirtækið í mjög harðri baráttu við sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi sem verið hafði einrátt á markaðnum með yfir 100 þúsund tonna sementssölu á ári. Átök þessara aðila jukust koll af kolli og fjöldi kærumála fór fyrir Samkeppnisstofnun. Sementsverksmiðju ríkisins var hins vegar breytt í hlutafélag árið 1993 og heitir nú Sementsverksmiðjan hf. Við harðnandi samkeppni var reksturinn orðinn erfiður og í október 2003 seldi ríkið Íslensku sementi ehf. verksmiðjuna, en það fyrirtæki er í eigu BM-Vallár, Björgunar og norska fyrirtækisins Norcem sem er hluti af þýska sements- og byggingarisanum HeidelbergCement Group. Þá um sumarið höfðu orðið nokkur uppskipti á íslenska sementsmarkaðnum því í júní 2003 var gerði APÍ stóran viðskiptasamning við Steypustöðina og Loftorku sem áður höfðu að mestu skipt við Sementsverksmiðjuna. Má segja að þá hafi Aalborg Portland Íslandi hf. í fyrsta sinn náð leiðandi stöðu á íslenskum sementsmarkaði.

Samkeppnin er áfram hörð á milli APÍ og Sementsverksmiðjunnar sem fór í mikla endurnýjun eftir eigendaskiptin.