Inger Lise Egeland hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Kaupþings [ KAUP ] í Noregi. Fyrrverandi framkvæmdastjóri, Jan Petter Sissener, hefur ákveðið að láta af störfum af persónulegum ástæðum, segir í frétt bankans. Hann var einnig yfirmaður hlutabréfamiðlunar í samstæðunni. Í fréttinni segir að Mark Carey hafi verið ráðinn aðstoðarforstjóri Kaupþings í Noregi og muni einnig stýra Markaðsviðskiptum í Noregi.

Í frétt Kaupþings er eftirfarandi haft eftir Hreiðari Má Sigurðssyni forstjóra: „Ég óska Inger Lise Egeland og Mark Carey til hamingju með stöðuhækkunina og ég er sannfærður um, í ljósi reynslu þeirra og hæfileika, að þau séu rétta fólkið til að efla starfsemi okkar í Noregi áfram. Jan Petter Sissener hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að umbreyta starfsemi okkar í Noregi í alhliða banka. Að undanförnu hefur hann jafnframt einbeitt sér að því að efla hlutabréfamiðlun hjá samstæðunni. Ég vil þakka honum Jan Petter framlag hans og óska honum alls hins besta í því sem hann kann að taka sér fyrir hendur.”

Inger Lise gekk til liðs við Kaupþing árið 2006 sem framkvæmdastjóri Bankasviðs í Noregi. Áður starfaði hún hjá Aker ASA, sem aðstoðarframkvæmdastjóri Fjármálasviðs.

Jan Petter hóf störf hjá Kaupþingi árið 2005, sem forstjóri Kaupþings í Noregi, og tók síðar einnig við stöðu sem yfirmaður hlutabréfamiðlunar.