Reykjalundur-plastiðnaður ehf. tók við iðnrekstri SÍBS að Reykjalundi í maí 2004. Voru kaupin á rekstrinum leidd af Hauki Þór Haukssyni sem stýrði síðan umbreytingaferli sem framkvæmdastjóri og einn af nýju eigendunum. Hann hefur nú selt hlutabréf sín í félaginu og látið af störfum. Í hans stað hefur verið Hlöðver Hlöðversson, verkfræðingur og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri, verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins.

Algjör umsnúningur varð á þessum rekstri eftir að nýir eigendur tóku við. Var hagnaður af rekstri félagsins á fyrstu 6 mánuðum þessa árs og lítur út fyrir að allar áætlanir standist. Helstu verkefni fyrirtækisins eru framleiðsla og sala á plastumbúðum og plaströrum. Einnig rekur fyrirtækið innflutningsdeild sem m.a. flytur inn og dreifir LEGO-leikföngum.

Haukur Þór segir að ekki hafi verið samkomulag í hluthafahópnum um að selja fyrirtækið á þessum tímapunkti. Því hafi niðurstaðan orðið sú að hann var keyptur út. -- "Ég hafði það alltaf að markmiði að fara fljótleg út aftur. Ég tók það að mér að snúa þessu við og það tókst. Það gekk í rauninni mjög vel og á þessu ári verður mjög góður hagnaður á fyrirtækinu."

Haukur Þór telur að fyrirtækið eigi góða möguleika hér á umbúðamarkaði. Þá náði félagið samningum um framleiðslu á umbúðum fyrir Færeyinga og hann telur ekkert útilokað að ná í fleiri sérhæfðum verkefni utan landsteinanna. Það verði þó ekki hans hlutverk að stýra því en hann gefur þó ekki upp hvað hann taki sér nú fyrir hendur. Það komi í ljós á næstu vikum.