Framkvæmdastjóri fjárfestingarbankans Goldman Sachs, Lloyd C. Blankfein, fékk 69 milljónir Bandaríkjadala, um 4,4 milljarða króna, árangurstengdar greiðslur á þessu ári. Þetta eru hæstu greiðslur sem stjórnandi fyrirtækis á Wall Street hefur nokkru sinni fengið og langt yfir því sem framkvæmdastjórar margra keppinauta Goldman Sachs fá, en sumir þeirra hafa misst bónusa sína vegna slæmrar afkomu í ár, að því er fram kemur í WSJ.

Greiðslur til Blankfein samanstanda af 26,8 milljónum dala í reiðufé og 41,1 milljón dala í hlutafé og kaupréttum. Þessu til viðbótar fær hann 600.000 dala grunnlaun.

Í WSJ kemur einnig fram að framkvæmdastjóri fjárfestingarbankans Morgan Stanley, John Mack, fær 250.000 dala grunnlaun á þessu ári, um 16 milljónir króna og ekki aðrar greiðslur. Framkvæmdastjóri Bear Stearns, James Cayne, fær líka aðeins grunnlaun sín í ár, 800.000 dali, eða rúmar 50 milljónir króna. Bæði Morgan Stanley og Bear Stearns tilkynntu í liðinni viku um meira tap á fjórða fjórðungi en búist hafði verið við.