„Þarna var bara sett upp svikamilla og menn notfærðu sér heimildir innanhús í bönkunum til að fara gegn þeim sem voru að kaupa sér gjaldeyrisvarnir,” segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar hf. í Grundarfirði.

Guðmundur Smári segist taka fullkomlega undir málflutning Eiríks Tómassonar hjá Þorbirni í Grindavík sem hefur harðlega gagnrýnt hvarnig staðið var að gjaldmiðlaskiptasamningum í bönkunum.

Guðmundur Smári segist hafa varað við þessum samningum strax í sumar og hafi  þá hringt í yfirvöld og bent á að þarna væru í gangi mjög óeðlilegir hlutir. Hann vildi ekki upplýsa að svo stöddu hvaða yfirvald en sagðist þó hafa fengið jákvæð viðbrögð.

,,Það er ekki hægt að kalla þetta öðru nafni en svikamilla og við í sjávarútveginum gengum inn í hana. Það hefði engin tekið þessa framvirku gjaldeyrissamninga ef menn hefðu vitað að bankinn notaði þessar upplýsingar hinum meginn á móti. Þá var auðvitað vörnin ónýt.”

-         Þið fengu þá rangar upplýsingar í bankanum?

,,Þeir lugu bara að okkur. Ráðgjöfin var sett upp þannig að þeir fóru gegn okkur og ætluðu að græða á okkur.”

Að sögn Guðmnundar Smára vita þeir í raun lítið hver staðan er núna. Samningarnir bíða inni í gömlu bönkunum og ekki vitað hvernig á þeim sé tekið. Hann sagði að hann og aðrir stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækjanna væru nú að íhuga að láta reyna á samninganna og neita að greiða.