„Ábatinn af því að fella niður ferðir í vetur nemur hundruðum milljóna,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í samtali við Viðskiptablaðið og tekur fram að þar sé meðtalinn starfsmannakostnaður.

Hann vildi ekki gefa upp nákvæma tölu en segir að framundan séu frekari hagræðingaraðgerðir innan félagsins til viðbótar við þær sem kynntar voru í morgun þegar Icelandair boðaði umfangsmiklar sparnaðaraðgerðir.

Birkir segir að félagið hafi séð fram á offramboð í haust ef ekki hefði verið gripið til aðgerða nú þar sem síhækkandi eldsneytiskostnaður hafi dregið að einhverju leyti úr eftirspurn.

Hann segir breytilegar kostnað af hverri flugferð nú vega um 75% nú til dags en fyrr á árum hafi fastur kostnaður verið mun meiri.

„Þá liggur við að það sé betra að láta vélarnar standa í Keflavík,“ segir Birkir. „Þegar fastur kostnaður nam meira en breytilegur kostnaður borgaði það sig nánast alltaf að fljúga.“

Ekki fleiri uppsagnir í bili

Aðspurður um hvort frekari sparnaðaraðgerðir eða uppsagnir séu framundan segir Birkir að ekki standi til að segja upp fleira fólki í bili.

„Þetta er stór aðgerð núna og við sjáum ekki fram á að þurfa að framkvæma slíkt aftur í bili,“ segir Birkir.

Hann tekur fram að nú standi yfir sparnaðaraðgerðir í öllum deildum og vísar í tilkynningu félagsins frá því í morgun þar sem fram kemur að millistjórnendum hafi verið fækkað, til standi að fljúga vélunum hægar til að spara eldsneyti og eins verði leitað leiða til að létta þær ásamt fleiri aðgerðum.

Mikið sparast af því að fljúga hægar

Aðspurður segir Birkir að spara megi mikið fé með því að létta vélar og fljúga þeim hægar,

„Sparnaðurinn er gífurlegur og við sjáum fram á að spara um 2-300 milljónir á ári í eldsneytiskostnað með þessum,“ segir Birkir.

Hann segir eldsneytiskostnað félagsins hafa hækkað á þriðja milljarða á einu ári og bendi á að það sé hækkun ofan á það sem fyrir var.

„Eldsneytiskostnaðurinn hækkaði í kringum milljarð á fyrst ársfjórðungi,“ segir Birkir.

Ekki frekari breytingar á ætlunarflugi

Hann segir að ekki standi til að gera frekari breytingar á áætlunarleiðum félagsins í vetur. Áætlunarflug til Lundúna og Kaupmannahafnar verði óbreytt og fjölgað verði ferðum til New York.

„Við erum í raun bara að taka út eina vél, við munum reka sjö vélar í stað átta,“ segir Birkir og sér ekki fram á samdrátt í pöntunum í haust. Hann segir sumarið líta vel út tekjulega séð og býst við að nóg verði að gera næstkomandi vetur.